12. mar. 2024

Hörður Áskelsson heiðursverðlaunahafi

Heiðursverðlaun íslensku tónlistarverðlaunanna 2024.

Hörður Áskelsson fæddist á Akureyri 22. nóvember 1953, sonur Áskels Jónssonar söngstjóra og organista frá Mýri í Bárðardal og Sigurbjargar Hlöðversdóttur, húsmóður, frá Djúpavogi. Hörður hóf tónlistarnám sjö ára að aldri á Akureyri og varð stúdent frá M.A. 1973. Hann lauk tónmenntakennaraprófi 1975 og burtfararprófi í orgelleik frá Tónlistarskólanum í Reykjavík. Hörður stundaði framhaldsnám við Robert Schumann-tónlistarháskólann í Düsseldorf í Þýskalandi á árunum 1976 til 81. Þaðan lauk hann A-prófi í kirkjutónlist með besta vitnisburði árið 1981. Hörður var organisti Fríkirkjunnar í Hafnarfirði 1973 til 76 og organisti í Neanderkirche í Düsseldorf 1981 til 1982.

Það ár kom hann heim og var ráðinn organisti og kantor Hallgrímskirkju. Því starfi gegndi hann frá 1982 til 2021. Á þessum tíma gegndi Hörður lykilhlutverki við uppbyggingu listalífs í Hallgrímskirkju. Hann stofnaði Mótettukór Hallgrímskirkju 1982 og stjórnaði honum frá upphafi. Hörður var stofnandi kammerkórsins Schola Cantorum frá 1996 og stjórnandi hans frá upphafi. Báðir þessir kórar hafa verið í fremstu röð íslenskra kóra um árabil.

Hörður hefur komið að frumflutningi fjölmargra tónverka sem hafa verið samin séstaklega fyrir hann og kóra hans, eftir íslensk samtímatónskáld. Þar að auki hefur hann flutt öll helstu kórverk sem um getur eftir helstu tónskáld heimsins. Hann hefur miðlað reynslu sinni við fjölbreytt kennslustörf, meðal annars sem kennari við ýmsa tónlistarskóla en einnig sem lektor í litúrgískum söngfræðum við guðfræðideild Háskóla Íslands. Hörður hefur ritað talsvert um tónlist auk þess að semja ógrynni af mótettum, sálmalögum og sönglögum um ævina.

Hörður hefur hlotið margskonar viðurkenningar fyrir stöf sín á sviði tónlistar, þar á meðal Íslensku tónlistarverðlaunin, Menningarverðlaun DV og Íslensku bjartsýnisverðlaunin. Hann var útnefndur Borgarlistamaður Reykjavíkur árið 2002 og sæmduir riddarkrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2004.

Hörður hlaut Liljuna, viðurkenningu þjóðkirkjunnar, árið 2002, fyrir ævistarf sitt sem kantor Hallgrímskirkju í Reykjavík og hið mikla tónlistarlega frumkvöðlastarf sitt.

Hörður Áskelsson er heiðursverðlaunahafi íslensku tónlistarverðlaunanna 2024.

Þakkarræða Harðar

Elsku tónlistarmenn og samstarfsfólk mitt til margra ára, vinir og fjölskylda

Með mikilli auðmýkt þakka ég fyrir þann mikla heiður sem mér er sýndur með þessum verðlaunum hér í kvöld.

Ég er óendanlega þakklátur fyrir öll þau tækifæri sem mér hafa gefist á löngum ferli til að iðka tónlist og fylgja eftir hugmyndum mínum; allt frá því að mér var ungum manni treyst til að taka við kantorstöðu í hinum verðandi þjóðarhelgidómi á Skólavörðuholti — sem var þá enn á byggingarstigi.

Það er fallegt að hugsa til þess að faðir minn á Akureyri og afi minn á Mýri í Bárðardal voru báðir organistar og söngstjórar, á heimilum þar sem almennur söngur og hljóðfæraleikur var eðlilegur hluti af lífinu þótt formleg tónlistarmenntun stæði ekki til boða. Ég var hins vegar þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að læra á píanó frá barnsaldri, og kynnast orgelinu sem unglingur. Aðeins með eina litla ferðatösku og einn vænan gulrótapoka flutti ég að heiman 19 ára gamall, til að elta drauminn um að geta einn daginn spilað frægasta verk orgelsins - tokkötu og fúgu í d moll.

Í Reykjavík tók Róbert Abraham Ottósson fallega um herðarnar á unga draumóramanninum og varðaði leiðina fyrir mig, að ég skyldi klára tónmenntakennaranámið með orgelnáminu í Tónó (Tónlistarskólanum í Reykjavík) og halda síðan til Þýskalands til frekara náms, sem ég gerði. En það voru ekki bara ráðin hans Róberts Abrahams sem urðu örlagavaldar í mínu lífi á þessum árum því í Tónó fann ég líka ástina í lífi mínu, fegurstu rósina mína til 50 ára, Ingu Rós Ingólfsdóttur.

Með henni gekk ég líka inn í þann tónlistarheim sem umvafði hennar fjölskyldu og æskuheimili, sem var uppeldisstöð mikilla máttarstólpa í íslensku tónlistarlífi. Ung og ástfangin fluttum við til Þýskalands þar sem við fengum að lifa og hrærast í evrópskri menningu, og sækja okkur þekkingu og reynslu til að taka með heim.

Þegar við Inga Rós fluttum heim eftir 6 ára dvöl í Þýskalandi árið 1982 var ég ráðinn sem kantor við Hallgrímskirkju þar sem söfnuðurinn, undir forystu Karls heitins Sigurbjörnssonar og síðar Jóns Dalbú Hróbjartssonar, tók mér af fádæma hlýju, með hvetjandi undirtektum og stuðningi við allt sem ég tók mér fyrir hendur: stofnun Mótettukórsins og Listvinafélagsins sem varð að bakhjarli allra þeirra tónleika og listviðburða, stórra og smárra sem við stóðum fyrir í kirkjunni; og þar sem Klais-orgelið og Mótettukórinn voru í burðarhlutverki og seinna líka Schola Cantorum og Alþjóðlega barokksveitin. Það er ekki sjálfgefið að mæta svona mikilli vinsemd og njóta svona mikils trausts til nýsköpunar og mótunar í listrænu starfi eins og ég mætti í Hallgrímskirkju. Slíkur stuðningur við tónlistina sem við fluttum í kirkjunni Guði einum til dýrðar — eins og Bach komst að orði um tónlist sína — verður seint fullþakkaður.

Með svona fjölmennan hóp tónlistarfólks og listvina í kringum sig gefur auga leið að þakkarþulan yrði heldur löng ef ég ætti að nefna þau öll með nafni sem hafa stutt mig og tekið þátt í þessu ævintýri með mér á löngum ferli, öll árin 39 í Hallgrímskirkju og síðustu tvö árin í Hörpu.

Elsku kórfjölskylda, elsku tónlistarvinir, elsku formenn og stjórnir kóranna og Listvinafélagsins í gegnum árin, elsku Erla Elín Hansdóttir – takk af öllu hjarta.

Elsku fjölskyldan mín, börnin mín og barnabörn, takk, takk, takk.

Stærstu þakkirnar fær elsku Inga Rós mín, stoð mín og stytta, en ekkert hefði orðið úr öllum þessum stóru verkefnum, uppbyggingardraumum, og metnaðarfullu áformum ef hún Inga Rós mín hefði ekki alltaf verið minn helsti stuðningsmaður, og með mér á öllum vöktunum, á hverju sem gekk.

(Eins og Bach sagði - Soli Deo Gloria. )

Takk.